Guardiola treystir á yfirmenn sína

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City telur að félagið muni fá að halda áfram að leika í Meistaradeild Evrópu þrátt fyrir ásakanir um fjárhagslegt misferli. Verði félagið sett í bann, verði hinsvegar að taka því og halda áfram.

Þýski fjölmiðillinn Der Spiegel birti ýmis gögn í síðasta mánuði sem bentu til þess að eigendur Manchester City hefðu ekki farið eftir reglum UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, um fjárhagslega háttvísi.

BBC hefur eftir hátt settum aðila innan UEFA að trúverðugleiki FFP-reglna sambandsins (um fjárhagslega háttvísi) sé í húfi ef sambandið og enska úrvalsdeildin taki ekki málið til ítarlegrar rannsóknar.

Guardiola sagði á fréttamannafundi að stjórnarformaður City, Khaldoon al-Mubarak, og framkvæmdastjórinn Ferran Soriano, hefðu fullvissað sig um að félagið þyrfti ekkert að óttast.

„Við verðum ekki settir í bann, alls ekki. Ég er á þeirri skoðun því stjórnarformaðurinn okkar og framkvæmdastjórinn okkar hafa útskýrt málið fyrir mér og ég treysti þeim. Ef þetta gerist, samkvæmt ákvörðun UEFA, þá verðum við að hlíta því og halda áfram okkar striki," sagði Guardiola.

mbl.is