Salah gaf Milner verðlaun sín í leikslok

Mohamed Salah í þann mund að fullkomna þrennu sína í …
Mohamed Salah í þann mund að fullkomna þrennu sína í dag. AFP

Mohamed Salah var valinn maður leiksins eftir að hafa skorað þrennu í 4:0-sigri Liverpool gegn Bournemouth í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Salah vildi þó ekki taka við verðlaununum fyrir áfangann.

Í viðtali við Sky í leikslok gaf Salah liðsfélaga sínum, James Milner, viðurkenninguna. Tilefnið er að Milner var að spila sinn 500. leik í ensku úrvalsdeildinni, en hann er aðeins 13. leikmaðurinn í sögunni sem nær þeim áfanga. „Ég vil heiðra hann fyrir ótrúlegan feril,“ sagði Salah.

Spurður um frammistöðu sína og mörkin þrjú var Salah skiljanlega sáttur.

„Þrjú mörk, liðið komið á toppinn og við héldum hreinu. Þetta voru frábær úrslit. Ég var ánægðastur með þriðja markið mitt, ég var mjög yfirvegaður. Ég veit að allir búist  við miklu af mér, en ég einbeiti mér að því að liðið vinni alla leiki og að við séum á toppnum,“ sagði Salah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert