Sigurmark Úlfanna í uppbótartíma

Matt Doherty (t.h.) fagnar innilega eftir að hafa skorað sigurmarkið …
Matt Doherty (t.h.) fagnar innilega eftir að hafa skorað sigurmarkið undir lokin. AFP

Matt Doherty skoraði sigurmarkið í 2:1-sigri Wolves á Newcastle í eina leik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag en markið skoraði hann á fimmtu og síðustu mínútu uppbótartímans í síðari hálfleik.

Diogo Jota kom gestunum í Wolves yfir á 17. mínútu áður en Ayoze Pérez jafnaði metin sex mínútum síðar í afar fjörugum leik. Það fóru sjö gul spjöld á loft á St. James Park í dag og eitt rautt en það fengu heimamenn á 57. mínútu þegar DeAndre Yedlin felldi Jota sem var sloppinn í gegnum vörn Newcastle.

Þrátt fyrir að leika manni færri héldu heimamenn skipulaginu gríðarlega vel og áttu bæði lið ágætis möguleika á að kreista fram sigurmark. Það stefndi þó allt í jafntefli áður en títtnefndur Jota átti frábæran sprett upp hálfan völlinn en hann dansaði framhjá nokkrum varnarmönnum áður en hann skaut að marki. Martin Dubravka varði skot hans beint fyrir Doherty sem kom askvaðandi og ýtti boltanum í galopið marki með skalla, Úlfunum til mikillar ánægju.

Wolves fer því í 22 stig og er nú í 10. sæti en Newcastle er enn í 15. sætinu með 13 stig eftir 16 umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert