Mourinho rekinn frá United

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Manchester United hefur rekið José Mourinho úr starfi en félagið greinir frá þessu á vef sínum í dag.

Mourinho hefur verið við stjórnvölinn hjá Manchester United í tvö og hálft ár. Liðið endaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni í fyrra en illa hefur gengið hjá liðinu á þessu tímabili. Liðið er í sjötta sæti og byrjun þess á tímabilinu er sú versta frá upphafi í ensku úrvalsdeildinni.

Fram kemur í tilkynningu frá Manchester United að ráðinn verði stjóri til bráðabirgða sem mun stýra liðinu út leiktíðina en ekki hefur verið gefið upp hver það verður. Michael Carrick sem hefur verið aðstoðarmaður Mourinho mun stýra liðinu þar til nýr bráðabirgðastjóri verður ráðinn.

Mourinho gerði nýjan samning við Manchester United í janúar á þessu ári og ljóst er að United þarf að greiða Portúgalanum drjúgan skilding fyrir uppsögnina en talið er að Manchester-liðið þurfi að punga út um 24 milljónum punda. Sú upphæð jafngildir um 3,7 milljörðum íslenskra króna.

Manchester United tapaði fyrir Liverpool 3:1 á sunnudaginn og er nú 19 stigum á eftir erkifjendum sínum. Þess má geta að 17. desember fyrir þremur árum var Mourinho rekinn frá Chelsea og það eftir 3:1 tap á móti Liverpoool. Undir stjórn Mourinho vann United enska deildabikarmeistaratitilinn 2017 og Evrópudeildina sama ár og þá vann liðið Samfélagsskjöldinn 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert