Leeds biður Derby afsökunar

Marcelo Bielsa.
Marcelo Bielsa. AFP

Enska knattspyrnufélagið Leeds hefur beðið Derby afsökunar eftir að lögregla þurfti að hafa afskipti af njósnara félagsins fyrir utan æfingasvæði Derby en liðin mættust í B-deildinni í gærkvöldi. Þá hafa forráðamenn Leeds einnig rætt við Marcelo Bielsa, þjálfara liðsins, sem viðurkenndi sök sína í málinu.

Þjálfari úr þjálfarateymi Leeds faldi sig í runnaþykkni og fylgdist með æfingum Derby samkvæmt Frank Lampard, þjálfara liðsins, og viðurkenndi Bielsa strax sök í málinu fyrir leikinn á Elland Road í gær, sem Leeds vann 2:0.

„Í kjölfar ummæla Marcelo Bielsea í gær mun félagið brýna fyrir þjálfaranum og starfsfólki hans að vinna af þeim heilindum sem Leeds hefur verið byggt á,“ segir í yfirlýsingunni sem Leeds gaf út nú í morgun. „Eigandi okkar, Andrea Radrizzani, hefur hitt eiganda Derby, Mel Morris, til að biðjast formlega afsökunar vegna aðgerða Bielsa.“

mbl.is