Kane frá fram í mars og missir af stórleikjum

Harry Kane meiðist gegn Manchester United um helgina.
Harry Kane meiðist gegn Manchester United um helgina. AFP

Tottenham varð fyrir áfalli í dag þegar í ljós kom að Harry Kane, sem meiddist í tapi liðsins gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um helgina, verður frá næstu sex vikurnar hið minnsta.

Kane er með sködduð liðbönd í ökkla og er sagt að hann snúi í fyrsta lagi aftur í byrjun mars. Það þýðir að Tottenham verður án hans gegn Dortmund í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, í undanúrslitaleik deildabikarsins gegn Chelsea og í deildarleikjum gegn bæði Chelsea og Arsenal, svo eitthvað sé nefnt.

Tottenham er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 48 stig, níu stigum fyrir aftan topplið Liverpool og fimm stigum frá Manchester City sem situr í öðru sæti. Chelsea er svo í fjórða sæti, stigi á eftir Tottenham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert