Þetta er búið að vera mjög erfitt

„Þetta er búið að vera mjög erfitt en strákarnir hafa staðið vel saman ásamt öllum hjá félaginu,“ segir Aron Einar Gunnarsson, leikmaður Cardiff City, í viðtali á BBC en Aron og félagar tileinkuðu argentínska sóknarmanninum Emilano Sala sigurinn gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn.

Lík Sala fannst fyrir helgina í flugvélinni sem fórst á leið frá Nantes til Cardiff í síðasta mánuði en Sala hafði þá nýgengið í raðir Cardiff.

„Það mikilvægasta var fyrir fjölskylduna að fá að syrgja og vonandi finnst flugmaðurinn svo fjölskylda hans geti gert slíkt hið sama,“ segir Aron Einar.

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff City, hefur aflýst fyrirhugaðri ferð liðsins til Tenerife en félagið á ekki að spila næst fyrr en 22. þessa mánaðar þegar það mætir Watford í ensku úrvalsdeildinni.

Warnock telur betra að leikmenn hans njóti góðs tíma með fjölskyldum sínum í kjölfarið á þessu hörmulega slysi.

Ég hef aldrei vitað neitt svona í lífi mínu og ég hef séð flesta hluti og fjölskyldan er mikilvægari en fótboltinn er það ekki?“ segir Warnock.

Aron Einar Gunnarsson með mynd af Emiliano Sala.
Aron Einar Gunnarsson með mynd af Emiliano Sala. AFP
mbl.is