Áfall fyrir United

Anthony Martial fær aðhlynningu í leiknum gegn Paris SG.
Anthony Martial fær aðhlynningu í leiknum gegn Paris SG. AFP

Anthony Martial og Jesse Lingard verða frá keppni næstu tvær til þrjár vikurnar vegna meiðslanna sem þeir urðu fyrir í tapi Manchester United gegn Paris SG í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Old Trafford í vikunni.

Báðir þurftu þeir að hætta leik eftir fyrri hálfleikinn gegn frönsku meisturunum sem tryggðu sér sigurinn með því að skora tvö mörk í seinni hálfleik.

Þetta þýðir að þeir missa af bikarleiknum gegn Chelsea á Stamford Bridge á mánudagskvöldið og sömuleiðis af leiknum gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni sem fram fer á Old Trafford annan sunnudag. Þeir gætu einnig misst af deildarleikjunum á móti Crystal Palace og Southampton.

mbl.is