Allt gert til að hjálpa manni

Rakel Hönnudóttir glaðbeitt með liðsfélögum sínum eftir sigurinn á Birmingham.
Rakel Hönnudóttir glaðbeitt með liðsfélögum sínum eftir sigurinn á Birmingham. Ljósmynd/@readingfcwomen

„Þetta var þriðja snertingin hjá mér. Ég fékk sendingu í gegnum vörnina og var komin ein í gegn, og þurfti bara að klára færið mitt,“ segir Rakel Hönnudóttir við mbl.is en hún tryggði sínu nýja liði Reading sætan 2:1-sigur á Birmingham í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í gær.

Með sigrinum komst Reading áfram í 8-liða úrslit þar sem liðið getur mætt Liverpool, Chelsea, Manchester United, Manchester City, West Ham, Aston Villa eða Durham. Um var að ræða þriðja leik Rakelar fyrir Reading en hún samdi við félagið í lok janúar. Hún hefur komið inn á sem varamaður í öllum leikjunum en alls skorað þrjú mörk og þannig haldið áfram þar sem frá var horfið með Limhamn Bunkeflo í sænsku úrvalsdeildinni í fyrra.

„Þessi leikur í gær var bara mjög jafn og skemmtilegur. Mér er sagt að Reading hafi aldrei unnið Birmingham áður svo að þetta var mjög sætur sigur. Við vorum yfir í svolítinn tíma en þær jöfnuðu úr vítaspyrnu frekar seint í leiknum. Þá gerðum við sóknarskiptingu og ég kom inn á, og það bara gekk upp,“ segir Rakel en hún skoraði sigurmarkið átta mínútum fyrir leikslok.

„Ég er mjög ánægð með þessa byrjun hérna. Þetta er mjög sterkt lið og ég er að koma inn á miðju tímabili, svo það tekur tíma að komast inn í alla hluti hérna. Liðið spilar mjög sérstakan taktískan leik svo ég þarf að læra á allt. Ég reyni svo bara að nýta þær mínútur sem ég fæ. Ég bjóst ekkert endilega við að fá að spila svona mikið strax, sérstaklega ekki fyrsta leikinn eftir að hafa bara verið hérna í þrjá daga. Ég er bara mjög ánægð með hvernig þetta er að þróast og ætla að nýta áfram þann tíma sem ég fæ,“ segir Rakel sem gæti spilað sinn fyrsta leik í byrjunarliði Reading á miðvikudagskvöld þegar liðið mætir West Ham í ensku úrvalsdeildinni. Reading er þar í 6. sæti af 11 liðum með 18 stig og leik til góða á flest önnur lið, tveimur stigum fyrir ofan West Ham. Manchester City er taplaust á toppnum með 35 stig.

Rakel fagnar sigurmarkinu gegn Birmingham.
Rakel fagnar sigurmarkinu gegn Birmingham. Ljósmynd/@readingfcwomen

Rakel lék eitt tímabil með LB í Svíþjóð en hefur annars leikið með Breiðabliki og Þór/KA hér á landi. Þessi þrítuga landsliðskona, sem á að baki 94 A-landsleiki, kann afar vel við sig í Reading sem er borg í aðeins í klukkutíma fjarlægð frá miðborg Lundúna.

„Aðstæðurnar hérna eru mjög góðar, eiginlega betri en ég þorði að vona. Þetta gerðist svo fljótt þegar ég samdi við félagið svo ég var ekkert búin að koma og skoða neitt áður en ég kom. Það er allt mjög „professional“ hérna, maður getur tekið aukaæfingar eins og maður vill og hér eru allir leikmenn atvinnumenn, það er engin okkar að vinna við eitthvað annað. Maður getur alltaf leitað til þjálfaranna eftir aukaæfingum og leiðbeiningum um allt, og það er allt gert til að hjálpa manni að komast inn í hlutina,“ segir Rakel við mbl.is áður en hún skellir sér á æfingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert