Klopp vildi fá Sancho

Jürgen Klopp sat fyrir svörum á blaðamannafundi í gær.
Jürgen Klopp sat fyrir svörum á blaðamannafundi í gær. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kveðst svo sannarlega hafa viljað fá til félagsins hinn 18 ára gamla enska kantmann Jadon Sancho sem í dag er leikmaður Dortmund í Þýskalandi.

Sancho var seldur frá Manchester City til Dortmund árið 2017 fyrir 8 milljónir punda. Klopp vildi fá Sancho á þessum tíma, eftir að ljóst var að Sancho vildi færa sig um set til þess að fá að fleiri tækifæri til að spila, en hann segir að City hafi ekki viljað selja leikmann til keppinauta sinna í ensku úrvalsdeildinni.

Klopp kom inn á þetta þegar hann var spurður út í það að síðustu misseri væru þýsk félög farin að kaupa oftar leikmenn frá enskum félögum. „Það er sniðugt að kaupa enska leikmenn því við hefðum aldrei átt möguleika á að fá Sancho. Við erum ekki blindir. Við sáum hann, við kunnum að meta hann og svo veltum við því fyrir okkur hvort við gætum fengið hann. Nei, það gátum við ekki. Ensk félög selja ekki öðrum enskum félögum. Ég veit ekki alveg ástæðuna en þau gera það ekki. Núna geta þeir farið til Þýskalands og spilað í dásamlegri deild,“ sagði Klopp.

Liverpool mætir Þýskalandsmeisturum Bayern München í kvöld kl. 20 í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka