Pérez skaut Southampton í kaf

Newcastle vann góðan sigur á Southampton.
Newcastle vann góðan sigur á Southampton. AFP

Newcastle vann góðan 3:1-heimasigur á Southampton í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Ayoze Pérez fór á kostum fyrir Newcastle og skoraði öll mörk liðsins. 

Spánverjinn kom Newcastle á bragðið á 27. mínútu og var hann aftur á ferðinni aðeins fjórum mínútum seinna er hann kom Newcastle í 2:0. Þannig var staðan í hálfleik. 

Mario Lemina minnkaði muninn á 59. mínútu og freistaði Southampton að jafna metin. Þá opnaðist hins vegar fyrir Newcastle og Pérez og framherjinn skoraði þriðja markið sitt og þriðja mark Newcastle á 86. mínútu og þar við sat. 

Newcastle er í 12. sæti deildarinnar með 41 stig og Southampton í 16. sæti með 36 stig, fimm stigum meira en Cardiff sem er í fallsæti. 

mbl.is