Framtíð Rashford í óvissu

Marcus Rashford hefur frestað því að skrifa undir nýjan samning …
Marcus Rashford hefur frestað því að skrifa undir nýjan samning við Manchester United. AFP

Marcus Rashford, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur frestað því að skrifa undir nýjan samning við félagið en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Núverandi samningur Rashford við Manchester United rennur út næsta sumar en félagið vill framlengja við leikmanninn sem er 21 árs gamall.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Rashford hafi áhyggjur af stöðu mála hjá félaginu og hafi þess vegna frestað því að skrifa undir nýjan samning. United endaði í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í vor með 66 stig og mun ekki leika í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð sem eru mikil vonbrigði á Old Trafford. Rashfor d vill bíða og sjá, hvað félagið gerir í félagaskiptaglugganum í sumar, áður en hann framlengir.

Rashford gekk í gegnum erfiða tíma í upphafi tímabilsins og fékk lítið að spila undir stjórn José Mourinho. Framherjinn gekk í gegnum endurnýjun lífdaga þegar Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær tók við stjórnartaumunum hjá félaginu en frammistaða hans dalaði mikið undir lok tímabilsins. Alls skoraði Rashford 10 mörk og lagði upp önnur 6 í 33 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert