Guardiola útilokar að taka sér frí

Pep Guardiola hefur stýrt liði Manchester City frá árinu 2016.
Pep Guardiola hefur stýrt liði Manchester City frá árinu 2016. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er ekki á leið í frí frá fótbolta en þetta staðfesti hann á dögunum. Enskir og spænskir fjölmiðlar hafa haldið því fram að undanförnu að Guardiola ætli sér að taka sér frí frá knattspyrnu ef hann stýrir City til sigurs í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en hann á tvö ár eftir af samningi sínum við City.

„Ég er ekki að hugsa um að taka mér eitthvert frí frá fótbolta. Ég er enn þá ungur og ég hef ákveðin markmið sem knattspyrnustjóri sem ég vil ná. Þetta eru falskar fréttir um að ég sé á leið í eitthvert frí, ég verð áfram hjá City nema þeir reki mig,“ sagði knattspyrnustjórinn brattur.

Guardiola tók við Manchester City sumarið 2016 og hefur liðið unnið ensku úrvalsdeildina tvö ár í röð undir hans stjórn. Þá vann liðið þrennuna á Englandi í ár, bikarkeppnina, deildabikarinn og ensku úrvalsdeildina, og varð þar með fyrsta karlaliðið til þess að afreka það á Englandi.

mbl.is