Pogba fær ekki að fara í sumar

Paul Pogba hefur ekki mikinn áhuga á að vera áfram ...
Paul Pogba hefur ekki mikinn áhuga á að vera áfram í herbúðum Manchester United. AFP

Forráðamenn Manchester United ætla ekki að leyfa Paul Pogba að yfirgefa félagið í sumar. Félagið hefur sett 150 milljón punda verðmiða á franska miðjumanninn til að fæla burt Real Madríd og Juventus sem hafa áhuga á Pogba. 

Pogba viðurkenndi á dögunum að hann væri spenntur fyrir nýrri áskorun og er hann ekki ánægður á Old Trafford. Pogba bað um að yfirgefa Manchester United síðasta sumar, en hann á tvö ár eftir af samningi sínum við félagið. 

Aðeins virðist tímaspursmál hvenær Pogba yfirgefur Manchester United, þar sem hann hefur engan áhuga á að framlengja samning sinn við félagið. 

Forráðamenn Real Madríd hafa mikinn áhuga á Pogba, en félagið borgaði 130 milljónir punda fyrir Eden Hazard í síðustu viku. Félagið er búið að eyða 250 milljónum í fimm leikmenn í sumar og þurfa menn þar á bæ að fara varlega vegna fjárhagsreglna UEFA. 

mbl.is