Leikmenn Bayern spenntir fyrir komu Sané

Leroy Sané hefur verið sterklega orðaður við endurkomu til Þýskalands …
Leroy Sané hefur verið sterklega orðaður við endurkomu til Þýskalands að undanförnu. AFP

Robert Lewandowski, framherji þýska knattspyrnufélagsins Bayern München, greindi frá því í viðtölum á dögunum að leikmenn liðsins væru spenntir fyrir komu Leroy Sané til félagsins. Sané er samningsbundinn Manchester City á Englandi en hann hefur verið sterklega orðaður við Bayern í allt sumar.

Sané átti ekki fast sæti í liði City á nýliðinni leiktíð þar sem liðið tryggði sér sigur í ensku úrvalsdeildinni, annað árið í röð. „Við erum mjög spenntir fyrir Sané til Bayern,“ lét Lewandowski hafa eftir sér. „Við þurfum hins vegar að bíða og sjá hvað verður en vonandi gengur þetta í gegn,“ sagði framherjinn ennfremur.

Bayern hefur nú þegar boðið 80 milljónir evra í leikmanninn en City hafnaði því boði. Samkvæmt fjölmiðlum á Englandi vilja Englandsmeistararnir fá að minnsta kosti 120 milljónir evra fyrir Sané en það er upphæð sem Bayern ræður illa við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert