Kvarta yfir Newcastle vegna Bruce

Steve Bruce, nýr stjóri Newcastle.
Steve Bruce, nýr stjóri Newcastle. AFP

Forráðamenn Sheffield Wednesday hafa sent formlega kvörtun til ensku úrvalsdeildarinnar í kjölfar þess að Newcastle réð Steve Bruce sem nýjan knattspyrnustjóra liðsins.

Bruce var stjóri Sheffield en hætti störfum í síðustu viku eftir að hafa hafið viðræður við Newcastle, þar sem hann skrifaði svo undir þriggja ára samning. Hann tók einnig tvo úr þjálfarateymi sínu hjá Sheffield Wednesday með sér, en liðið hefur leik í ensku B-deildinni eftir aðeins tíu daga. Þar á bæ eru menn ekki sáttir við vinnubrögðin og vilja rannsókn á því hvort Newcastle hafi brotið reglur.

Bruce tók við Sheffield Wednesday í febrúar og stýrði liðinu í 18 leikjum, tapaði þar aðeins þremur og skilaði liðinu í 12. sæti B-deildarinnar í vor. Hann var stuðningsmaður Newcastle í æsku og tók við af Rafa Benítez sem hvarf á braut í júní.

mbl.is