Jón Daði áfram í bikarnum

Jón Daði Böðvarsson í leiknum í kvöld.
Jón Daði Böðvarsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/WBA

Jón Daði Böðvarsson og samherjar hans í Millwall eru komnir áfram í aðra umferð enska deildabikarsins í fótbolta eftir sterkan 2:1-sigur á WBA á útivelli í kvöld. 

Jón Daði var í byrjunarliði Millwall í fyrsta skipti og lék allan leikinn. Það byrjaði hins vegar ekki vel því Charlie Austin kom WBA yfir á níundu mínútu. 

Millwall jafnaði á 28. mínútu með marki Tom Bradshaw og Aiden O'Brien skoraði sigurmarkið á 55. mínútu. Millwall mætir Oxford úr C-deildinni í næstu umferð. 

Patrik Sigurður Gunnarsson var varamarkmaður Brentford úr B-deildinni er liðið tapaði óvænt í vítakeppni á heimavelli gegn Cambridge úr D-deildinni. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1:1. 

Jökull Andrésson var ekki í leikmannahópi Reading sem hafði betur gegn Wycombe úr C-deildinni á útivelli. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1:1 en Reading hafði betur í vítakeppni. 

Þá eru lið eins og Leeds, Sunderland, Derby, Swansea og Stoke einnig komin áfram. Leeds hafði betur gegn D-deildarliði Salford á útivelli, 3:0.

Bræðurnir Phil og Gary Neville eiga Salford ásamt David Beckham, Nicky Butt og Paul Scholes. Þá er Sir Alex Ferguson tíður gestur á leikjum liðsins og lét hann sig ekki vanta í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert