Hótar að senda Sánchez í varaliðið

Ole Gunnar Solskjær er kominn með upp í kok af …
Ole Gunnar Solskjær er kominn með upp í kok af Alexis Sánchez samkvæmt fréttum á Englandi. AFP

Ole GunnarSolskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, er kominn með nóg af Alexis Sánchez, sóknarmanni liðsins, en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Sánchez er launahæsti leikmaður liðsins með um 500.000 pund á viku en hann hefur lítið sem ekkert getað síðan hann kom frá Arsenal í janúar 2018.

Sánchez skoraði eitt mark og lagði upp önnur þrjú í 20 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Fjölmiðlar á Englandi greina frá því að Solskjær ætli sér að senda leikmanninn í varalið félagsins ef hann finnur sér ekki nýtt lið áður en félagaskiptaglugginn í stærstu deildum Evrópu lokar þann 2. september næstkomandi. 

Sánchez er samningsbundinn United til ársins 2022 en lið á Ítalíu hafa sýnt honum áhuga. Hann fær hins vegar afar vel borgað í Manchester og því eru fá lið sem hafa efni á því að semja við leikmanninn. Fari svo að hann finni sér nýtt lið mun hann að öllum líkindum fara á láni en United mun engu að síður borga stóran hluta af launum hans.

mbl.is