Liverpool eitt liða með fullt hús stiga

Leikmenn Liverpool fagna gegn Burnley í síðustu umferð.
Leikmenn Liverpool fagna gegn Burnley í síðustu umferð. AFP

Enska úrvalsdeildin í knattspyrnu fer aftur af stað í dag eftir landsleikjahlé en fimmta umferðin hefst með sjö leikjum í dag. Topplið Liverpool fær Newcastle í heimsókn í hádegisleiknum áður en Manchester United, Tottenham og Chelsea spila öll klukkan 14. Deginum lýkur svo með heimsókn Englandsmeistara Manchester City til Norwich.

Liverpool er eina lið deildarinnar sem vann fyrstu fjóra leiki sína en Evrópumeistararnir hafa farið vel af stað. Engin ný meiðsli herja á toppliðið eftir hléið, markvörðurinn Alisson er enn frá vegna meiðsla en James Milner, Joe Gomez og Naby Keita eru nálægt heillri heilsu og gætu tekið þátt á morgun. Einvígi liðanna voru oft eftirminnileg á tíunda áratug síðustu aldar eins og sjá má í klippunni hér að neðan.

Newcastle er með fjögur stig í 14. sæti en eini sigur liðsins kom á útivelli gegn Tottenham, 1:0, í ótrúlegum leik. Lærisveinar Steve Bruce hafa því nú þegar gert stórliði skráveifu á heimavelli í haust.

Klukkan 14 hefjast fimm leikir og beinast því augu flestra að Manchester United, Tottenham og Chelsea. Stórliðin þrjú hafa öll fagnað slitróttu gengi í fyrstu leikjununum og ljóst að pressan er á þeim að byrja að vinna leikina sína. United fær Leicester í heimsókn en gestirnir eru, undir stjórn Brendan Rodgers, ósigraðir á tímabilinu til þessa. United keypti varnarmanninn Harry Maguire af Leicester í sumar fyrir metfé og verður því áhugavert að fylgjast með honum kljást við Jamie Vardy, skæðasta sóknarmenn Leicester.

Tottenham mistókst að fylgja eftir frábærri byrjun sinni í Lundúnaslagnum gegn Arsenal í síðustu umferð þegar gestunum tókst að komast í tveggja marka forystu á Emirates-leikvanginum. Heimamenn kreistu fram jafntefli og hefur Tottenham nú aðeins unnið fjóra af síðustu 16 deildarleikjum sínum. Einn af þessum fjórum leikjum var hins vegar gegn Crystal Palace, andstæðingi dagsins. Þá heimsækir Chelsea lið Wolves en úlfarnir hafa ekki tapað í síðustu tíu heimaleikjum sínum. Þeir eiga þó enn eftir að vinna leik á þessu tímabili. Á sama tíma heimsækir Burnley, lið Jóhanns Bergs Guðmundssonar, Brighton en Jóhann tekur ekki þátt. Hann verður frá næstu 3-4 vikurnar vegna meiðsla í kálfa.

Klukkan 16.30 hefst svo viðureign nýliða Norwich og Englandsmeistara Manchester City. Fyrir utan jafntefli gegn Tottenham í annarri umferðinni hefur fátt stöðvað meistarana sem hafa skorað 14 mörk í fjórum leikjum til þessa. Norwich er aðeins búið að vinna einn leik og verður að treysta á finnska framherjann Teemu Pukki sem hefur skorað fjögur af sex mörkum liðsins til þessa.

Leikir dagsins
13:30 Liverpool - Newcastle
14:00 Brighton - Burnley (Jóhann Berg Guðmundsson)
14:00 Manchester United - Leicester
14:00 Sheffield United - Southampton
14:00 Tottenham - Crystal Palace
14:00 Wolves - Chelsea
16:30 Norwich - Manchester City

Tammy Abraham er byrjaður að skora fyrir Chelsea.
Tammy Abraham er byrjaður að skora fyrir Chelsea. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert