Kanté mögulega með gegn Liverpool

N'Golo Kanté í leik á móti Chelsea.
N'Golo Kanté í leik á móti Chelsea. AFP

Möguleiki er á að franski miðjumaðurinn N’Golo Kanté snúi aftur inn í lið Chelsea þegar liðið tekur á móti toppliði Liverpool í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Kanté hefur ekki verið með í síðustu fjórum leikjum Chelsea-liðsins vegna meiðsla í ökkla og hefur hans verið sárt saknað.

„Það gefur okkur mikið að fá Kanté aftur. Við vitum öll hversu mikilvægur hann er liðinu og þeim eiginleikum sem hann færir okkur. Eina spurningarmerkið fyrir mig er formið á honum því hann hefur verið lengi frá,“ sagði Frank Lampard, stjóri Chelsea, á fréttamannafundi í dag.

Hinn ungi Mason Mount, sem hefur spilað svo vel með Lundúnaliðinu á tímabilinu, er í kapphlapi við tímann að ná sér af meiðslum sem hann hlaut í Meistaradeildarleiknum gegn Valencia í vikunni.

mbl.is