Andlega hefur þetta verið erfitt

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson segir að sterk viðbrögð Everton eftir erfiðan kafla á síðustu leiktíð veiti hvatningu að snúa gengi liðsins við en Everton hefur tapað fjórum leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni og er í fallsæti eftir átta umferðir.

„Við getum lært frá síðasta tímabili. Við vorum í erfiðri stöðu en okkur tókst að vinna okkur út úr henni. Þetta hefur verið svekkjandi og mikil vonbrigði síðustu vikurnar. Andlega hefur þetta verið erfitt og það er ekki auðvelt að vera í þessari stöðu. Ég hef trú á því að við getum bætt okkur. Við verðum að standa saman og sjá til þess að við leggjum enn harðar að okkur,“ segir Gylfi Þór á vef Everton.

Gylfi er mættur til Íslands og verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu gegn Frakklandi og Andorra í undankeppni EM en næsti leikur Everton er á móti West Ham á Goodison Park þann 19. þessa mánaðar.

Gylfa hefur enn ekki tekist að skora í deildinni á tímabilinu en hann skoraði 13 deildarmörk á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert