United eina liðið sem vill mæta okkur núna

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

„Ég held að það séu ekki mörg lið sem vilja spila við okkur núna en það lítur út fyrir að Manchester United sé það eina sem vill mæta okkur,“ sagði Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool á fréttamannafundi í dag í aðdraganda leiks Liverpool gegn Manchester United á Old Trafford á sunnudaginn.

Gengi liðanna hefur verið ólíkt á tímabilinu. Liverpool hefur unnið alla átta leiki sína og er með átta stiga forskot á Manchester City í toppsæti deildarinnar en United er í tólfta sætinu og er aðeins tveimur stigum frá fallsæti.

„Við erum mjög afslappaðir og mjög metnaðarfullir líka. Við förum í þennan leik til að reyna að vinna. Við verðum að ganga úr skugga um það að ef United vill breyta tímabilinu þá verður það að bíða í eina viku.

Þetta verður ekki auðveldur leikur. Á Sky voru menn að búa til sameiginlegt lið og það voru allt leikmenn Liverpool. Það er brandari. Þetta er sirkus og við erum í honum miðjum. Ég er meðvitaður um styrk Manchester United,“ sagði Klopp á fréttamannafundinum í dag.

Klopp staðfesti að markvörðurinn Alisson sé orðinn klár í slaginn en það muni skýrast á leikdag hvort Mohamed Salah og Joel Matip séu tilbúnir að byrja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert