Það er bara nóvember

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP

Mohamed Salah sóknarmaður Liverpool segir að það sé of snemmt að ræða um Liverpool sem líklega meistara en fyrir stórleikinn gegn Manchester City á sunndaginn er Liverpool sex stigum á undan Englandsmeisturunum sem er í öðru sæti.

Salah segir að jafnvel þótt Liverpool vinni Manchester City og nái þar með níu stiga forskoti í toppsæti deildarinnar sé úrslitin ekki ráðin í titilbaráttunni.

„Menn töluðu um það í desember á síðasta ári að titilbaráttan væri úr sögunni þegar við vorum með sex til sjö stiga forskot á toppnum. Þetta er ekki búið.

Þetta eru bara þrír leikir og ef þú lendir í slæmum kafla getur þú lent í vandræðum. Þó svo að vinnum leikinn þá er löng leið eftir. Það er bara nóvember,“ sagði Salah við Sky Sports.

Liverpool hefur bara tapað tveimur stigum í fyrstu 11 umferðunum en liðið gerði 1:1 jafntefli við Manchester United á Old Trafford. City hefur hins vegar tapað tveimur leikjum, gegn Wolves og Norwich og gerði jafntefli við Tottenham.

mbl.is