Nýliðarnir juku á vandræði Tottenham (myndskeið)

Vandræði Tottenham halda áfram í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en liðið gerðu 1:1-jafntefli á heimavelli gegn nýliðum Sheffield United í dag. Staðan í hálfleik var markalaus en Heung-min Son kom Tottenham yfir á 58. mínútu.

Nokkrum mínútum síðar jafnaði David McGoldrick metin fyrir Sheffield United. Það mark fékk hins vegar ekki að standa vegna rangstöðu en dómurinn þótti ansi vafasamur. George Baldock jafnaði hins vegar metin fyrir nýliðina á 78. mínútu og þar við sat.

Vandræði Tottenham halda því áfram í ensku úrvalsdeildinni en síðasti sigurleikur liðsins í deildinni var þann 28. september síðastliðinn gegn Southampton. Liðið er í tólfta sæti deildarinnar með 14 stig en Sheffield United er í sjötta sætinu með 17 stig.

George Baldock fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Tottenham.
George Baldock fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Tottenham. AFP
mbl.is