Salah missir af næstu leikjum

Mo Salah skallar boltann í netið í leiknum gegn City.
Mo Salah skallar boltann í netið í leiknum gegn City. AFP

Knattspyrnumaðurinn Mo Salah verður ekki með egypska landsliðinu í leikjum gegn Kenía og Kómoreyjum í undankeppni Afríkukeppninnar. Salah er að glíma við ökklameiðsli sem hann varð fyrir í leik Liverpool og Manchester City á sunnudag. 

Egypska knattspyrnusambandið staðfesti tíðindin á Twitter í dag og birti mynd af Salah með spelku utan um vinstri ökklann. Salah skoraði í leiknum gegn City en fór af velli á 87. mínútu. 

Salah er búinn að vera slæmur í ökklanum síðan Liverpool vann 2:1-sigur á Leicester 5. október og þurfti einnig að fara af velli gegn Tottenham fyrir tveimur vikum.

Óvíst er hvort Salah verði búinn að jafna sig fyrir leik Liverpool og Crystal Palace 23. nóvember. 

mbl.is