Eiður hefur trú á að Mourinho rífi Tottenham upp

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiður Smári Guðjohnsen hefur fulla trú á að José Mourinho nái laga hlutina hjá Tottenham og koma því í betri stöðu en hans gamli stjóri hjá Chelsea var í morgun ráðinn knattspyrnustjóri Tottenham og gildir samningur hans til 2023.

„Ég get ekki sagt að þessi ráðning hafi komið mér neitt sérstaklega á óvart. Stór klúbbur eins og Tottenham ákveður að láta þjálfara sinn fara og þá er horft til hverjir eru á markaðnum. Nafn Mourinho kemur sterkt fram og þó svo að hann hafi látið út úr sér í fortíðinni að hann gæti ekki tekið við Tottenham út af Chelsea þá stekkur hann auðvitað á þetta enda klæjar hann í fingurna að komast í þjálfun á nýjan leik og það á Englandi og Tottenham er flott lið til að taka við,“ sagði Eiður Smári í samtali við mbl.is.

Eiður Smári lék með Tottenham árið 2010. Hann kom til liðsins seint í janúar það ár í láni frá Mónakó og skoraði eitt mark í 11 deildarleikjum með liðinu.

„Það er pressa á mönnum og Tottenham er einn af þeim klúbbum sem mikil pressa er á þótt oft hafi ekki alveg verið innistæða fyrir því. Liðið er að berjast við það að taka skrefið upp á við og sennilega er það ástæðan fyrir því að Pochett­ino var rekinn. Hann er búinn að vera við stjórnvölinn hjá liðinu í fimm og hálft ár. Kúrfan hefur legið upp á við frá því hann tók við í fjögur og hálft ár en á þessu tímabili hefur ekki gengið sem skildi. Þá fara menn að hugsa.

Getur hann farið lengra með þetta lið? Með fullri virðingu fyrir Pochett­ino gerði hann frábæra hluti og bjó til mjög skemmtilegt lið en náði ekki samt ekki alveg að stíga skrefið að koma liðinu í hæsta gæðaflokk í ensku úrvalsdeildinni þótt það hafi komist í úrslitaleikinn í Meistaradeildinni á síðasta tímabili,“ sagði Eiður Smári.

Tók leikmennina og félagið á næsta stig

Eiður Smári þekkir vel til starfa Mourinho en hann lék undir stjórn Portúgalans hjá Chelsea í þrjú ár og fögnuðu þeir Englandsmeistaratitlinum 2005 og 2006. Spurður hvort hann telji að Mourinho geti snúið dæminu við hjá Tottenham sagði Eiður;

„Miðað við mína reynslu. Þegar hann labbaði inn hjá okkur þá tók hann okkur leikmennina og félagið upp á næsta stig. Hann hefur gert margt síðan og unnið titla hér og þar. Hann náði ekki að rífa Manchester United aftur upp á þann stað sem það félag vill vera á og það sýnir kannski samkeppnina. Það er allir á sömu leið og vilja komast hærra. Hann skilaði þó United bikar í Evrópudeildinni.

Ef þú horfir á félagið, nýja völlinn, leikmennina sem hann er með plús einhverja viðbót sem hann kemur til að fá þá og þegar hann er búinn að setja sinn stimpil á liðið er ég viss um að Tottenham verði við topp fjögur. Það er ekki alveg eðlilegt að sjá hvar liðið er á stigatöflunni í dag,“ sagði Eiður en Tottenham er í 14. sæti með 14 stig eftir tólf leiki

Eiður Smári fagnar enska meistaratitlinum undir stjórn Mourinho.
Eiður Smári fagnar enska meistaratitlinum undir stjórn Mourinho. Ljósmynd/Chelsea
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert