Óvissa með ástandið á Salah

Mohamed Salah hefur verið tæpur vegna ökklameiðsla að undanförnu.
Mohamed Salah hefur verið tæpur vegna ökklameiðsla að undanförnu. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, veit ekki hvort hann geti teflt egypska framherjanum Mohamed Salah fram á morgun þegar topplið ensku úrvalsdeildarinnar sækir Crystal Palace heim í þrettándu umferð deildarinnar.

Salah hefur glímt við ökklameiðsli síðan Hamza Choudhury, leikmaður Leicester, tæklaði hann harkalega í leik liðanna í síðasta mánuði. Hann lék ekki með Egyptum í landsleikjatörninni og sást myndaður með hlíf á ökklanum í síðustu viku.

„Hann æfði í gær og hefur getað farið í gegnum ákveðnar æfingar. Ástandið hefur ekki versnað en meiðslin eru áfram til staðar. Við verðum að vera skynsamir og ég verð að sjá hvernig hann kemst frá deginum í dag áður en ég tek ákvörðun,“ sagði Klopp á  fréttamannafundi sínum í dag.

Klopp staðfesti að Virgil van Dijk væri heill heilsu en hann dró sig út úr hópi Hollendinga þegar þeir mættu Eistlandi fyrr í þessari viku.

„Virgil er 100 prósent í lagi en ég get ekki fullyrt um hina. Æfingin í dag er mikilvæg fyrir þá sem komu seint eftir landsleikina, Firminho, Fabinho og Winjaldum. Maður verður að bíða fram á síðustu stundu hvað þá varðar en það kom enginn meiddur heim,“ sagði Klopp.

Þá kom fram að Xherdan Shaqiri væri farinn að æfa með liðinu á ný eftir rúmlega mánaðar fjarveru vegna meiðsla í kálfa. Hann hefur aðeins spilað í 25 mínútur á tímabilinu og einu sinni verið í byrjunarliði frá áramótum. Klopp sagði að Svisslendingurinn væri eftir sem áður í mikilvægu hlutverki.

„Vangaveltur eru vangaveltur og ég get ekkert um það sagt. Hann á svo sannarlega framtíð hjá okkur og í vetur er hann okkur gríðarlega dýrmætur. Hann þarf að ná sér alveg til að geta skilað því sem við þurfum á að halda,“ sagði Klopp, spurður um hvort Shaqiri ætti einhverja framtíð á Anfield.

mbl.is