Pochettino vill taka við Man. Utd

José Mourinho tók við af Pochettino og Pochettino vill gamla …
José Mourinho tók við af Pochettino og Pochettino vill gamla starfið hans Mourinho. AFP

Staðarblaðið í Manchester, Manchester Evening News, greinir frá því í dag að Mauricio Pochettino hafi mikinn áhuga á að verða næsti knattspyrnustjóri Manchester United.

Pressan á Ole Gunnar Solskjær, núverandi stjóra United, hefur aukist eftir að Pochettino varð atvinnulaus, er hann var rekinn frá Tottenham í síðasta mánuði.

Að sögn miðilsins hafði Pochettino mikinn áhuga á að taka við United eftir að José Mourinho var rekinn síðasta desember, en forráðamenn félagsins ákváðu að ráða Ole Gunnar Solskjær. 

Pochettino hefur verið orðaður við störf hjá félögum eins og Real Madríd, Bayern München og Arsenal. Manchester Evening News greinir frá því að United ætli ekki að reka Solskjær á næstunni, þrátt fyrir slæmt gengi. 

United hefur aðeins unnið tíu af 31 leik síðan Solskjær fékk þriggja ára samning í mars. Liðið hefur aðeins unnið fjóra leiki af fjórtán á leiktíðinni í ensku úrvalsdeildinni og þarf að vinna næstu þrjá leiki sína til að vera betur statt en liðið var er Mourinho var rekinn í desember á síðasta ári. 

Það gæti reynst þrautin þyngri þar sem United mætir Tottenham, Manchester City og Everton í næstu þremur leikjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert