Versta gengi Arsenal í 42 ár

Það gengur ekkert hjá Arsenal þessa dagana sem er án …
Það gengur ekkert hjá Arsenal þessa dagana sem er án sigurs í síðustu níu leikjum sínum. AFP

Enska knattspyrnufélagið Arsenal mátti þola 2:1-tap fyrir Brighton á heimavelli sínum, Emirates Stadium, í London í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Adam Webster kom Brighton yfir á 36. mínútu en Alexandre Lacazette jafnaði metin fyrir Arsenal á 50. mínútu. Það var svo Neal Maupay sem skoraði sigurmark leiksins á 80. mínútu og þar við sat.

Arsenal er nú án sigurs í síðustu sjö deildarleikjum sínum. Þá vann liðið síðast leik gegn Vitoria í Evrópudeild UEFA þann 24. október síðastliðinn. Alls er liðið því án sigurs í síðustu níu leikjum sínum í öllum keppnum og er þetta versta gengi liðsins síðan 1977. Þá vann liðið ekki leik í febrúar og mars og var án sigurs í tíu leikjum.

Freddie Ljungberg var að stýra Arsenal í sínum öðrum leik á tímabilinu. Svíin tók tímabundið við liðinu eftir að Unai Emery var rekinn í síðustu viku en Ljungberg hefur ekki farið vel af stað og verður að teljast afar ólíklegt að hann fái starfið til frambúðar. Arsenal er í tíunda sæti deildarinnar með 19 stig eftir fimmtán umferðir.

mbl.is