Á leið á Old Trafford?

Christian Eriksen hefur ekki heillað marga með spilamennsku sinni á …
Christian Eriksen hefur ekki heillað marga með spilamennsku sinni á þessari leiktíð. AFP

Christian Eriksen mun að öllum líkindum yfirgefa enska knattspyrnufélagið Tottenham í janúar en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Eriksen verður samningslaus næsta sumar og getur því farið frítt frá félaginu næsta sumar.

Tottenham verður því að selja leikmanninn þegar janúarglugginn verður opnaður, ætli félagið sér að fá eitthvað fyrir hann. Eriksen hefur alls ekki heillað á þessari leiktíð með spilamennsku sinni og vilja margir meina að Daninn sé ekki með hausinn á réttum stað.

Manchester United reyndi að fá Danann á Old Trafford síðasta sumar, en sóknarmaðurinn vildi ekki færa sig um set þar sem hann beið eftir tilboði frá Real Madrid. Eriksen er hins vegar tilbúinn að færa sig til Manchester í janúar samkvæmt enskum fjölmiðlum.

Eriksen kom til Tottenham frá Ajax árið 2013 og á að baki rúmlega 200 leiki fyrir félagið í öllum keppnum. Eriksen verður 28 ára gamall í febrúar á næsta ári en hann á að baki 94 landsleiki fyrir Danmörku þar sem hann hefur skorað 31 mark.

mbl.is