Aðrir munu vilja forðast að mæta okkur

José Mourinho og Son Heung-min eftir leikinn gegn Bayern í …
José Mourinho og Son Heung-min eftir leikinn gegn Bayern í gærkvöld. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Tottenham sagði eftir ósigurinn gegn Bayern München í Meistaradeildinni, 3:1, í gærkvöld að hann væri viss um að liðin sem unnu riðlana í keppninni muni vonast til þess að þau dragist ekki gegn hans mönnum í sextán liða úrslitum keppninnar.

„Ég held að við séum eitt af bestu liðunum í öðrum styrkleikaflokknum. Ég veit að í okkar landi eigum við fyrir höndum klikkaðan árstíma sem tekur sinn toll af leikmönnum, liðum og völlum, en þegar kemur að leikjunum í lok febrúar verð ég farinn að skilja mína leikmenn betur og þeir farnir að skilja mig betur. Við eigum eftir að vinna saman í tvo mánuði áður en að þessu kemur og við verðum miklu tilbúnari í slaginn,“ sagði Mourinho sem tók við liði Tottenham af Mauricio Pochettino í síðasta mánuði.

Hann hvíldi leikmenn eins og Harry Kane, Dele Alli og Jan Vertonghen í leiknum gegn Bayern í gærkvöld enda skiptu úrslit leiksins engu máli fyrir liðin sem voru bæði komin áfram og þýsku meistararnir þegar búnir að vinna riðilinn.

„Þetta var ekki spurning um hvort við værum tilbúnir eða ekki. Það er erfitt að undirbúa leik þar sem maður leggur meiri áherslu á hvaða leikmenn eru hvíldir en hvaða leikmenn spila leikinn og hver úrslitin verða. Maður reynir að láta leikmennina ekki finna þetta en þeir eru klókir og áttuðu sig vel á því að ég væri ekki með fókusinn á þessum leik heldur því sem er fram undan hjá okkur,“ sagði Mourinho við fréttamenn eftir leikinn.

mbl.is