Fyrirliðinn sá rautt í Lundúnaslagnum

Pierre-Emerick Aubameyang var rekinn af velli fyrir ljóta tæklingu í …
Pierre-Emerick Aubameyang var rekinn af velli fyrir ljóta tæklingu í síðari hálfleik. AFP

Crystal Palace og Arsenal skiptu með sér stigunum þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Selhurst Park í London í dag. Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en Pierre-Emerick Aubameyang kom Arsenal yfir strax á 12. mínútu eftir frábæra stungusendingu Alexandre Lacazette.

Fyrri hálfleikurinn var bragðdaufur, hvorugt lið skapaði sér nokkuð af viti, og staðan því 1:0 í hálfleik, Arsenal í vil. Crystal Palace byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og Jordan Ayew jafnaði metin fyrir Crystal Palace á 54. mínútu þegar skot hans fór af varnarmanni Arsenal og í netið.

Rúmlega tíu mínútum síðar fékk Pierre-Emerick Aubameyang að líta beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu á Max Meyer. Paul Tierney, dómari leiksins, gaf Aubameyang fyrst gula spjaldið en eftir að atvikið hafði verið skoðað með myndbandsdómgæslu var framherjinn rekinn af velli.

Hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum þótt bæði lið hefðu hæglega getað stolið sigrinum. Crystal Palace er áfram í níunda sæti deildarinnar með 29 stig en Arsenal er í því tíunda með 28 stig eftir 22 spilaða leiki.

Crystal Palace 1:1 Arsenal opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert