Dýrasti leikmaður í sögu Liverpool?

Kai Havertz gæti verið á leið til Liverpool fyrir metfé.
Kai Havertz gæti verið á leið til Liverpool fyrir metfé. AFP

Kai Havertz, einn efnilegasti knattspyrnumaður heims, gæti verið á leið til Liverpool en bæði enskir og spænskir fjölmiðlar greina frá þessu í dag. Havertz leikur í dag með Bayer Leverkusen í þýsku 1. deildinni en hann er einungis tvítugur að árum. 

Havertz hefur verið orðaður við öll stærstu lið Evrópu í vetur en þar ber hæst að nefna Bayern München, Barcelona og Real Madrid. Spænskir fjölmiðlar fullyrða að forráðamenn Liverpool hafi nú þegar átt í viðræðum við umboðsmann leikmannsins.

Það er talið næsta víst að Havertz yfirgefi Bayer Leverkusen í sumar en Liverpool er sagt tilbúið að borga 107 milljónir punda fyrir miðjumanninn. Það myndi gera hann að dýrasta leikmanni félagsins en varnarmaðurinn Virgil van Dijk er sá dýrasti í sögu félagsins og kostaði hann 75 milljónir punda.

Havertz spilaði sinn fyrsta leik fyrir Bayer Leverskusen árið 2016 en hann verður 21 árs gamall 11. júní næstkomandi. Þá á hann að baki sjö landsleiki fyrir Þýskaland þar sem hann hefur skorað eitt mark. Havertz hefur skorað tvö mörk og lagt upp eitt í fjórtán leikjum í þýsku 1. deildinni á þessari leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert