Forskot Liverpool orðið 16 stig

Virgil van Dijk í baráttunni við Andreas Perriera í dag.
Virgil van Dijk í baráttunni við Andreas Perriera í dag. AFP

Liverpool er komið með 16 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir 2:0-sigur á Manchester United á Anfield í dag. Liverpool á leik til góða og getur því náð 19 stiga forskoti. 

Liverpool komst yfir á 14. mínútu með marki Virgil van Dijk með skalla eftir hornspyrnu frá Trent Alexander-Arnold. Liverpool fékk nokkur færi til að bæta við marki í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var 1:0, en tvö mörk voru dæmd af Liverpool í hálfleiknum. 

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og fengu fjölmörg færi til að bæta við marki. Það tókst ekki á fyrstu mínútum hálfleiksins og United sótti í sig veðrið eftir því sem leið á seinni hálfleikinn.

United náði hins vegar ekki að skapa sér alvörufæri og Mo Salah refsaði í uppbótartíma. Alisson í marki Liverpool negldi þá boltanum fram á Salah sem var einn gegn David De Gea í marki United og kláraði vel. 

Liverpool er með 64 stig, 30 stigum meira en Manchester United sem er í fimmta sæti. 

Liverpool 2:0 Man. Utd opna loka
90. mín. Leik lokið Liverpool með 16 stiga forskot og með leik til góða.
mbl.is