Hópurinn stækkar hjá Liverpool

Dejan Lovren í leik Liverpool og Salzburg 10. desember en …
Dejan Lovren í leik Liverpool og Salzburg 10. desember en þar meiddist hann og hefur verið frá keppni síðan. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool hefur úr fleiri leikmönnum að velja en undanfarnar vikur fyrir viðureignina gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en lokaleikur 24. umferðar hefst á Molineux í Wolverhampton klukkan 20 í kvöld.

Króatíski miðvörðurinn Dejan Lovren er orðinn leikfær á ný eftir hálfs annars mánaðar fjarveru vegna meiðsla. Kamerúnski miðvörðurinn Joel Matip kom inn í hópinn í leiknum við Manchester United eftir þriggja mánaða fjarveru og sömuleiðis brasilíski miðjumaðurinn Fabinho, sem þá kom inn á sem varamaður, en hann hafði ekki spilað í tæpa tvo mánuði.

James Milner, Naby Keita og Xherdan Shaqiri eru áfram frá vegna meiðsla, eins og Nathaniel Clyne sem hefur verið úr leik undanfarna mánuði.

Wolves gæti teflt fram varnarmanninum Willy Boly og sóknarmannininum Diogo Jota á nýjan leik en þeir hafa verið frá vegna meiðsla að undanförnu.

Liverpool er með þrettán stiga forskot á Manchester City á toppi deildarinnar fyrir leikinn í kvöld og á tvo leiki til góða. Wolves er í sjöunda sætinu og nái liðið í stig fer það upp fyrir bæði Manchester United og Tottenham og í fimmta sætið.

mbl.is