Óvissa með Mané

Sadio Mané fór meiddur af velli í gær.
Sadio Mané fór meiddur af velli í gær. AFP

Sadio Mané, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, fór meiddur af velli þegar Liverpool vann 2:1-sigur gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni á Molineux-vellinum í Wolverhampton í gær.

Mané fór af velli eftir 33. mínútna leik en Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti það í leikslok að Mané hefði tognað. Ekki er enn þá ljóst hversu lengi sóknarmaðurinn verður frá en hann hefur verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu.

Klopp greindi hins vegar frá því að seneglaski sóknarmaðurinn myndi að öllum líkindum missa af næstu þremur leikjum Liverpool. Liðið heimsækir Shrewsbury í ensku bikarkeppninni á sunnudaginn og mætir svo West Ham og Southampton í ensku úrvalsdeildinni.

Eftir leikinn gegn Southampton hinn 1. febrúar næstkomandi, tekur við tveggja vikna vetrarfrí hjá Liverpool, en næsti leikur liðsins eftir hlé verður 15. febrúar gegn Norwich. Mané gæti verið klár í þann leik en þremur dögum síðar mætir Liverpool Atlético Madrid í fyrri leik liðanna á Spáni í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

mbl.is