Skyndilega barátta um fimmta sætið

Nýliðar Sheffield United eru í fimmta sæti sem stendur og …
Nýliðar Sheffield United eru í fimmta sæti sem stendur og gætu komist í Meistaradeildina. Það væri ævintýralegt. AFP

Englandsmeisturum Manchester City var í gær sparkað úr Meistaradeild Evrópu næstu tvö tímabilin eða til 2022. Félagið ætlar sér að áfrýja úrskurði UEFA til Alþjóðaíþróttadómstólsins í Sviss en sem stendur mun City ekki taka þátt í sterkustu félagsliða keppni heims á næstu leiktíð og opnar það dyrnar fyrir önnur lið.

Fjögur lið frá Englandi fá þátttökurétt í Meistaradeildinni hvert ár, þau fjögur lið sem hafna í fjórum efstu sætum deildarinnar. City er sem stendur í öðru sæti með 51 stig, 12 stigum frá fimmta sæti og því töluverðar líkur á því að liðið verði meðal fjögurra efstu í lok tímabils. Hvað þýðir það?

Öskubuskuævintýri nýliða?

Eins og staðan er akkúrat núna myndu nýliðar Sheffield United fá sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en samkvæmt reglum UEFA rennur þátttökurétturinn niður til þess liðs sem hafnar í fimmta sæti.

Nýliðarnir sitja þar með 39 stig, tveimur stigum frá Chelsea í fjórða sæti, en Tottenham er í 6. sæti með 37 stig, Wolves og Everton í 7.-8. sæti með 36 stig og Manchester United í 9. sæti með 35 stig.

Skyndilega gæti jafnvel Arsenal verið með í baráttunni en liðið, undir stjórn Mikel Arteta sem yfirgaf einmitt herbúðir City um jólin til að taka við Lundúnaliðinu, er í 10. sæti með 31 stig, átta stigum frá Sheffield United.

Verði bannið staðfest af Alþjóðaíþróttadómstólnum, eða lækkað niður í eitt ár, mun það reynast byr undir báða vængi ofan nefndra félaga sem hafa verið í baráttunni.

mbl.is