Augljóst rautt spjald

Frank Lampard var pirraður á hliðarlínunni í kvöld.
Frank Lampard var pirraður á hliðarlínunni í kvöld. AFP

„Það er erfitt að sætta sig við þetta af mörgum ástæðum, sumar tengjast fótbolta, aðrar ekki, sagði pirraður Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, í samtali við Sky eftir 0:2-tap fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. 

„Svona er fótboltinn og lífið stundum. Strákarnir lögðu sig fram, en þetta var erfitt kvöld. Þetta var ekki 2:0-leikur. Ég veit ekki hversu mörg skot við áttum, en þau voru mörg. Ef þú hins vegar skorar ekki, vinnur þú ekki. Það er ljóst. Við erum alla vega enn í fjórða sæti,“ sagði Lampard sem var alls ekki sáttur við dómgæsluna. 

„Harry Maguire átti að fá rautt spjald, það er augljóst. Það hefði breytt leiknum. Azpilicueta var ýtt, svo markið okkar átti að standa. Giroud var einni tánögl fyrir innan. Ég skil ekki til hvers dómarar eru með þennan skjá ef hann er aldrei notaður,“ sagði hann pirraður. 

mbl.is