Tíu ára aðdáandi United fékk bréf frá Klopp

Það eru ekki allir sem fá persónulegt bréf frá Jürgen …
Það eru ekki allir sem fá persónulegt bréf frá Jürgen Klopp. AFP

Daragh, tíu ára gamall stuðningsmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, ákvað að grípa til sinna ráða á dögunum og senda Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, bréf. Daragh, sem er frá Donegal á Írlandi, var ósáttur með gengi Liverpool á leiktíðinni og bað Klopp vinsamlegast um að fara að tapa leikjum.

„Liverpool er að vinna of marga leiki. Ef þú vinnur níu leiki í viðbót slær Liverpool metið yfir lengstu sigurhrinu í ensku úrvalsdeildinni og það er mjög sorgleg staðreynd fyrir stuðningsmann United. Viltu vinsamlegast tapa næsta leik svo það gerist ekki. Vonandi hef ég gert nóg til þess að sannfæra þig. Kveðja, Daragh,“ skrifaði strákurinn til Klopp.

„Mig langar til þess að nota tækifærið og þakka þér fyrir þetta bréf sem þú sendir mér,“ sagði Klopp í svari sínu til Daragh. „Ég geri mér grein fyrir því að þú varst ekki beint að óska mér góðs gengið en það er alltaf gaman að heyra í ungum knattspyrnuáhugamönnum. Ég get því miður ekki orðið við ósk þinni af einföldum ástæðum.“

„Starf mitt felst í að vinna fótboltaleiki því félagið á milljónir stuðningsmanna úti um allan heim og ég vil ekki bregðast þeim. Við höfum hins vegar tapað leikjum í gegnum tíðina og við munum halda áfram að tapa leikjum. Ég er orðinn 52 ára og ég get lofað þér því að hlutirnir eru mjög fljótir að breytast í fótboltanum.“

„Af bréfi þínu að dæma ertu ástríðufullur stuðningsmaður og United er heppið að vera með stuðningsmann eins og þig. Vonandi verður þú ekki of vonsvikinn þótt við vinnum fleiri titla því þegar allt kemur til alls eru félögin okkar miklir andstæðingar, en það ríkir alla jafna mikil virðing á milli þeirra og um það snýst fótboltinn,“ bætti Þjóðverjinn við.

mbl.is