Jesús var bjargvætturinn í slagnum um silfurpeningana

Riyad Mahrez og Gabriel Jesus fagna markinu sem Jesus skoraði …
Riyad Mahrez og Gabriel Jesus fagna markinu sem Jesus skoraði í kvöld. AFP

Manchester City er komið með sjö stiga forskot á Leicester City í einvígi liðanna um annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 1:0 sigur í viðureign liðanna á King Power leikvanginum í Leicester í kvöld.

Gabriel Jesus kom inná sem varamaður á 77. mínútu og skoraði sigurmarkið þremur mínútum síðar.

City er komið með 57 stig en Leicester er með 50 stig í þriðja sæti og þarf að fara að horfa um öxl því Chelsea er komið með 44 stig í fjórða sætinu. City minnkaði forskot Liverpool niður í nítján stig og Liverpool þarf því enn fimmtán stig úr síðustu tólf leikjunum til að gulltryggja sér meistaratitilinn.

Leicester byrjaði betur og fékk besta færi fyrri hálfleiks strax á 8. mínútu þegar Jamie Vardy átti skot í stöng eftir sendingu frá Youri Tielemans innfyrir vörn City.

Rodri og Kelechi Iheanacho eigast við í kvöld.
Rodri og Kelechi Iheanacho eigast við í kvöld. AFP

Manchester City náði smám saman yfirhöndinni og Kasper Schmeichel varði frá Ilkay Gündogan úr besta færi liðsins. Ederson í marki City varði síðan fast skot frá Jamie Maddison úr aukaspyrnu.

Á 41. mínútu slapp City með skrekkinn þegar Ederson keyrði Kelechi Iheanacho niður í vítateignum en hvorki Paul Tierney dómari né myndbandagengið sáu ástæðu til að dæma á það.

Staðan var 0:0 í hálfleik en Kevin De Bruyne átti gott skot á 53. mínútu sem Schmeichel varði vel.

Manchester City fékk vítaspyrnu á 62. mínútu sem Sergio Agüero tók en Schmeichel varði glæsilega frá honum.

Mínútu síðar komst Agüero í dauðafæri á markteig en aftur varði Schmeichel frá honum.

Gabriel Jesus kom inná fyrir Agüero á 77. mínútu og var ekki lengi að skora. Á 80. mínútu fékk hann sendingu frá Riyad Mahrez úr hraðri sókn, inn í vítateiginn hægra megin, og sendi boltann framhjá Schmeichel í hornið nær, 0:1.

Leicester 0:1 Man. City opna loka
90. mín. 3 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert