Býðst til að spila samningslaus

Willian ætlar að spila með Chelsea, þótt hann verði samningslaus.
Willian ætlar að spila með Chelsea, þótt hann verði samningslaus. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Willian hefur boðist til þess að klára tímabilið með Chelsea, þótt hann verði samningslaus í lok leiktíðar og að frestun ensku úrvalsdeildarinnar geri það að verkum að hann verður samningslaus áður en tímabilið verður búið. 

Willian hefur rætt við Chelsea um nýjan samning síðustu mánuði en hann vill þriggja ára samning á meðan Chelsea er aðeins reiðubúið að bjóða honum tveggja ára samning. Fyrir vikið hafa félög eins og Arsenal, Tottenham og Barcelona fylgst vel með stöðu leikmannsins. 

Þrátt fyrir það ætlar hann sér að klára leiktíðina með Chelsea. „Samningurinn minn rennur út í júlí og ef ég þarf að spila eftir að hann rennur út er það ekkert mál. Félagið hefur alltaf staðið vel við bakið á mér, sagði Willian við Esporte Interativo í heimalandinu. 

„Sama hvað, þá mun ég alltaf gefa allt sem ég á fyrir félagið, sama hvernig samningamálin mín eru,“ sagði Willian. 

mbl.is