Kínverjarnir setja strik í reikning Manchester United

Odion Ighalo með Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóra Manchester United sem …
Odion Ighalo með Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóra Manchester United sem hefur lýst yfir mikilli ánægju með frammistöðu hans. AFP

Kínverska knattspyrnufélagið Shanghai Shenhua hefur gert nígeríska landsliðsmanninum Odion Ighalo nýtt og girnilegt tilboð, samkvæmt Sky Sports, og þar með ríkir mikil óvissa um hvort hann verði áfram í röðum Manchester United þegar lánsdvöl hans þar lýkur.

Ighalo var lánaður til enska félagsins í lok janúar en hann lék áður með Watford í úrvalsdeildinni ensku. Hann hefur staðið sig betur en margir bjuggust við og skorað fjögur mörk í átta leikjum með liðinu, og Manchester United hefur sýnt mikinn áhuga á að kaup hann af Kínverjunum.

Nú hefur Shanghai Shenhua, sem hefur gefið upp að félagið vilji fá 15 milljónir punda fyrir Ighalo, gert honum tilboð um tveggja ára samning sem hljóðar upp á rúmlega 400 þúsund punda laun á viku. Talið er að það sé langt umfram þau laun sem United sé tilbúið til að greiða en Ighalo er sagður vera með 130 þúsund pund á viku hjá félaginu núna á meðan á lánsdvölinni stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert