Manchester líklegasti áfangastaðurinn

Jadon Sancho er eftirsóttasti leikmaður Evrópu um þessar mundir en …
Jadon Sancho er eftirsóttasti leikmaður Evrópu um þessar mundir en hann mun yfirgefa Dortmund í sumar. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United leiðir kapphlaupið um enska sóknarmanninn Jadon Sancho en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Sancho er samningsbundinn Borussia Dortmund í Þýskalandi þar sem hann hefur farið á kostum en hann kom til þýska félagsins frá Manchester City sumarið 2017.

United þarf hins vegar að rífa upp veskið til þess að kaupa leikmanninn sem kostar í kringum 120 milljónir punda. Það myndi gera Sancho að dýrasta leikmanni í sögu félagsins en franski miðjumaðurinn Paul Pogba er sem stendur dýrasti leikmaður í sögu United. Hann kostaði tæplega 90 milljónir punda í ágúst 2016 þegar United keypti hann af Juventus.

United er hins vegar ekki eina félagið sem hefur áhuga á Sancho en Liverpool, Chelsea, Barcelona og Juventus hafa öll áhuga á honum. Sancho er einungis tvítugur að árum en hann varð 20 ára í gær. Hann á að baki 90 leiki fyrir Dortmund í öllum keppnum frá árinu 2017 þar sem hann hefur skorað 31 mark og lagt upp önnur 42.

mbl.is