„Heimskur ef hann fer ekki frá Tottenham“

Harry Kane hefur verið á meðal bestu framherja ensku úrvalsdeildarinnar …
Harry Kane hefur verið á meðal bestu framherja ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin ár. AFP

Chris Sutton, fyrrverandi knattspyrnumaður og sparkspekingur hjá BBC, segir að Harry Kane sé heimskur ef hann fer ekki frá Tottenham á næstu árum.

Kane hefur spilað með Tottenham allan sinn atvinnumannaferil en hann er 26 ára gamall. Hann hefur verið besti framherji ensku úrvalsdeildarinnar, undanfarin ár, en hann hefur ekki spilað frá áramótum vegna meiðsla.

„Hann er í erfiðri stöðu og það átta sig allir á því,“ sagði Sutton í samtali við útvarpsstöð BBC. „Ef hann vill vinna ensku úrvalsdeildina sem dæmi, einhverntíma á ferlinum, þá á hann meiri möguleika á að gera það með öðru liði. Það myndu því allir skilja það ef hann myndi finna sér annað lið.“

„Tottenham er frábært lið en þeir eru því miður langt á eftir liðum á borð við Manchester City og Liverpool. Ef annaðhvort þessara félaga myndi sem dæmi leggja fram tilboð þá væri það heimska í Kane að fara ekki. Það væri í raun heimska að fara ekki til félags sem er að fara berjast um titla,“ bætti Sutton við.

mbl.is