Vill sjá United feta í fótspor Liverpool

Jürgen Klopp tók við Liverpool í október 2015 og leiðin …
Jürgen Klopp tók við Liverpool í október 2015 og leiðin hefur legið upp á við hjá félaginu síðan. AFP

Robin van Persie, fyrrverandi framherji enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er ekki ánægður með kaupstefnu félagsins á undanförnum árum. United hefur ekki gengið sem skildi eftir að Sir Alex Ferguson hætti með liðið á meðan Liverpool hefur verið stigvaxandi undir stjórn Jürgen Klopp og situr nú á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 25 stiga forskot þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu.

„Ef við horfum á Liverpool sem dæmi og kaupstefnu þeirra þá er hún allt öðruvísi en hjá United,“ sagði van Persie í samtali við enska fjölmiðla en hann lék með United á árunum 2012 til ársins 2015 og varð Englandsmeistari með liðinu 2013. „Félagið réð Klopp, gerði langtíma samning við hann og leyfði honum að móta sitt lið. Það var enginn leikmaður keyptur nema hann félli undir þann leikstíl sem Klopp vildi spila.“

„Þeir bjuggu til lið sem þjálfarinn fékka algjörlega að móta í eigin höndum. Hjá United þá hefur háum fjárhæðum verið eitt í stór nöfn eins og Paul Pogba og Alexis Sánchez og svo er reynt að búa til lið í kringum þessa gæja. United þarf að móta sér einhverja stefnu og búa til lið, ekki kaupa bara stjörnur. United þarf horfa til Liverpool og þess sem þeir hafa verið að gera og feta þannig í fótspor þeirra,“ bætti van Persie við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert