Ætlar að berjast fyrir sæti sínu hjá United

Andreas Pereira, til vinstri.
Andreas Pereira, til vinstri. AFP

Andreas Pereira hefur lítið spilað hjá Manchester United eftir að Bruno Fernandes kom til félagsins í janúar. Breskir fjölmiðlar greindu frá því í síðustu viku að Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, vildi losna við Pereira, en hann hefur sjálfur lítinn áhuga á að yfirgefa félagið. 

„Ég kom ungur til United en félagið hefur alltaf verið til í að gefa ungum leikmönnum tækifæri. Ég fékk tækifærið snemma og ég er mjög stoltur af því. Ég vil vera áfram hjá félaginu, berjast fyrir Solskjær, vinna leiki og vinna titla,“ sagði Pereira í viðtali á heimasíðu félagsins. 

„Það er erfitt að komast í liðið og enn erfiðara að halda sæti sínu. Þú átt góða daga og slæma en svo lengi sem ég held áfram að leggja mikið á mig mun allt fara vel,“ bætti hann við.

mbl.is