Leikmaður Chelsea vildi ekki æfa

N'Golo Kante í leik Chelsea og Manchester United.
N'Golo Kante í leik Chelsea og Manchester United. AFP

N'Golo Kanté, miðjumaður enska knattspyrnuliðsins Chelsea, æfði ekki með liðinu í dag af ótta við kórónuveirufaraldurinn. Leikmenn Chelsea byrjuðu að æfa á æfingasvæði liðsins í gær í fyrsta skipti eftir að útgöngubann var sett á Bretlandseyjar. 

Kanté mætti á æfinguna í gær, en hann lýsti yfir áhyggjum sínum yfir ástandinu og bað um að sleppa æfingunni í dag. Óvíst er hvenær hann byrjar að æfa á ný. Að sögn The Telegraph virti Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, ákvörðun franska heimsmeistarans. 

Frakkinn er ekki fyrsti leikmaður deildarinnar sem neitar að mæta á æfingar, því Troy Deeney, fyrirliði Watford, lýsti því yfir í gær að hann ætli ekki að æfa með liði sínu þar sem hann á ungan son sem hefur átt við öndunarerfiðleika að stríða. 

mbl.is