Kósóvóbúi til Tottenham?

Daniel Levy er stjórnarformaður Tottenham.
Daniel Levy er stjórnarformaður Tottenham. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham hefur gert Fenerbahce í Tyrklandi formlegt tilboð í framherjann Vedad Muriqi, samkvæmt frétt í tyrkneska blaðinu A Spor.

Tottenham hefur áður verið orðað við þennan 26 ára gamla Kósóvóbúa en Daniel Levy stjórnarformaður félagsins er sagður hafa boðið 4,5 milljónir punda í hann síðasta sumar. Blaðið Fotospor segir að Manchester United hafi líka verið með hann í sigtinu og boðið 22 milljónir punda í janúar en það sé nálægt þeirri upphæð sem Fenerbahce myndi sætta sig við. Ekkert varð úr því og United fékk hinn þrítuga Odion Ighalo lánaðan frá Kína í staðinn.

Muriqi kom til Fenerbahce síðasta sumar frá Rizespor og samdi til fjögurra ára. Hann hefur  gert 13 mörk í 25 leikjum í tyrknesku úrvalsdeildinni á yfirstandandi keppnistímabili. Þá hefur hann gert 8 mörk í 23 landsleikjum með Kósóvó.

mbl.is