Var með óbragð í munni

Adrian gerði afdrifarík mistök gegn Atlético Madrid en hafði fyrir …
Adrian gerði afdrifarík mistök gegn Atlético Madrid en hafði fyrir það staðið sig nokkuð vel í fjarveru Alisson Becker, aðalmarkvarðar Liverpool. AFP

Spænski markvörðurinn Adrián hjá Liverpool segist hafa hugsað um tap liðsins gegn Atlético Madrid í 16-liða úrslitum Meistarardeildar Evrópu á þessari leiktíð í þó nokkurn tíma eftir tapleikinn á Anfield.

Þar gerði sá spænski sig sekan um mistök í framlengingu eftir að Liverpool var komið í 2:0 stöðu, sem hefði fleytt liðinu áfram. Marcos Llorente nýtti sér aftur á móti mistök Adriáns og gestirnir gengu svo enn frekar á lagið og tryggðu sér 3:2 sigur og samanlagt 4:2 sigur í einvíginu.

„Fyrstu dagana gerði maður lítið annað en að naga sig í handarbökin,“ var haft eftir Adrián í frétt Liverpool Echo.

„Maður var með óbragð í munni. Það var ansi súrt eftir að hafa tapað þessu einvígi,“ sagði Adrian.

„Þetta leit vel út, við vorum á heimafelli og við áttum meira en 30 skot á markið en töpuðum samt. Maður leiksins var klárlega [Jan] Oblak en á endanum spilaði Atlético bara sinn leik. Þeir unnu okkur í báðum leikjunum og fóru verðskuldað áfram,“ sagði Adrián enn fremur.

Liverpool hefur ekki spilað síðan það tapaði gegn Atlético 12. mars en leikmenn liðsins sneru aftur til æfinga á Melwood fyrr í þessari viku.

Liverpool þarf aðeins sex stig í síðustu níu leikjum sínum til þess að tryggja sér fyrsta deildartitilinn í 30 ár. Enn er þó óljóst hvenær eða hvort enska úrvalsdeildin fari af stað á nýjan leik vegna kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert