Vill byggja lið Arsenal í kringum Coutinho

Philippe Coutinho og Thomas Müller fagna marki með Bayern München.
Philippe Coutinho og Thomas Müller fagna marki með Bayern München. AFP

Arsenal er að hefja viðræður við umboðsmann brasilíska knattspyrnumannsins Philippe Coutinho eftir að ljóst varð að Bayern München myndi ekki borga þær 105 milljónir punda sem áskilið var í samningi við Barcelona um að væri kaupverð hans eftir að lánsdvöl hans hjá félaginu lyki.

Þetta segir franski netmiðillinn Le10sport og fram kemur að Barcelona vilji selja Coutinho sem sé ekki í þeirra framtíðarplönum og félagið þurfi á peningunum að halda.

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal er sagður sjá Coutinho sem leikmann sem hann geti byggt lið sitt í kringum og Brasilíumaðurinn er sagður mjög áhugasamur um að snúa aftur til Englands þar sem honum gekk vel með Liverpool frá 2013 til 2018.

Coutinho hefur spilað 22 af 27 leikjum Bayern í þýsku 1. deildinni á yfirstandandi tímabili og skorað 8 mörk. 

mbl.is